Forsíða
Refillinn
Fréttir
Um verkefnið
Hafa Samband

Vatnsdæla, saga af ástum, átökum og erjum, er ættarsaga Hofverja í Vatnsdal og gerist á 9.- til 11.öld. Sögusviðið teygir sig frá Noregi og Svíðþjóð í austri til Orkneyja og Skotlands í vestri og svo norður til Íslands þar sem aðal sögusviðið er, í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Sagan er talin skrifuð á síðari hluta 13. aldar. Verkefnið Vatnsdæla á refli á fyrirmynd í Bayeux-reflinum sem saumaður var á 12.öld. Markmið þess er að endurvekja Vatnsdælu á nýjan hátt en þó gamlan, og segja söguna sem er myndræn og átakamikil, út frá nýju sjónarhorni. Samhliða því er fornri útsaumsgerð, refilsaumnum, gerð skil.

Verkefnið er hugarfóstur Jóhönnu E. Pálmadóttur, bónda og handavinnukennara og er unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands, Ístex, Textílsetur Íslands á Blönduósi og félagið Landnám Ingimundar gamla.

Refillinn er byggður upp þannig að sagan rennur eftir reflinum eins og teiknimynd. Sögusviðið fylgir lengd refilsins en hæð og lengd afmarkast af vinnu hönnuða og fræðimanna. Ákvörðun um stærð réði ekki frásögninni heldur var það sagan sem réði stærð refilsins. Endaleg stærð teikninganna varð 46,2 metrar á lengd og 0,50 á hæð. Horft er til þess að verkefnið verði ný leið til að efla menningartengda ferðaþjónustu um leið og verður boðið upp á útsaumskennslu. Einnig að refillinn verði eftirsóknarverður á meðan á vinnu hans stendur og eftir að hann er uppsettur.

Verkefnið er tvískipt. Í fyrri hluta verkefnisins var undirbúnings-, þróunar- og hugmyndavinna. Stjórn hafði yfirumsjón með verkefninu og voru það fulltrúar samstarfsaðila sem fóru með faglega og fræðilega þekkingu á verkefninu. Listaháskólinn tók verkefnið sem kennslu á vorönn 2011. Kristín Ragna Gunnarsdóttir, listamaður, afhenti teikningar af 26. kafla Vatnsdælu og í framhaldi hélt hún utan um verkefnið með kennslu í LHÍ. Ístex ehf spann bandið og litað, sem notað er til útsaumsins. Notuð er eingöngu sérvalin úrvals lambsull. Sérhannað útsaumsborð var unnið af Léttitækni ehf sem refillinn er strengdur upp á, á meðan á útsaumnum stendur.

Síðari þátturinn felst í að sauma út refilinn eftir teikningum sem koma frá Kristínu Rögnu og nemendum Listaháskóla Íslands. Ýmiss námskeið verða haldin til að gefa þátttakendum kost á að læra refilsaum og þær vinnuaðferðir sem nauðsynlegar eru til að ljúka verkinu. Blandað verður saman útsaum og fræðslu bæði í fyrirlestrarformi og sýningarformi ásamt ferðum um söguslóðir undir leiðsögn heimamanna. Einnig fá þátttakendur að fara heim með þær prufur sem þeir gera á námskeiðinu sem verða síðar minjagripir. Frá upphafi útsaumsins liggur fram bók þar sem verða skráð nöfn allra þeirra sem setja sín spr í refilinn.

Á sumrin er ætlunin að ferðafólk fái að kaupa sig inn á verkið, t.d. klukkustund í senn þar sem viðkomandi getur sett sín spor í refilinn um leið og hann lærir þennan gamla saum, refilsauminn og fá svo nafn sitt í bókina góðu.

Verkefnið styður við menningartengda ferðaþjónustu í samvinnu við heimaaðila og felst í að kynna Vatnsdælu fyrir ferðamönnum á sem fjölbreyttastan hátt. Boðið verður upp á ferðir um svæðið, kennslu í útsaumi og námskeið. Hugmyndin er að halda námskeið undir ýmsum formerkjum t.d. fræðileg námskeið, hvíldarnámskeið, nördanámskeið o.fl. Ferðamaðurinn er ekki einungis áhorfandi, heldur einnig þátttakandi í verkinu. Með því að sauma nokkur spor í refilinn eiga þeir þátt í að koma þessari einstöku sögu á framfæri.

Þá verða hannaðir og framleiddir ýmsir minjagripir samhliða verkefninu. Þegar refillinn er tilbúinn mun hann eflaust vekja verðskuldaða eftirtekt ferðamanna sem leið eiga um Húnavatnssýslur. Unnið verður að reflinum í Kvennaskólanum á Blönduósi, fyrstu hæð. Til frambúðar er vonast til að koma honum fyrir í Klausturstofu á Þingeyrum ef viðbygging rís þar innan þess tíma sem áætluð verklok eru.

Nánari upplýsingar: Jóhanna Pálmadóttir s.898-4290, akur@emax.is


© HUGMYNDIR